Dagbók lögreglu: Reiðhjólamaður handleggsbrotnaði

Í síðustu viku var lögreglan á Suðurlandi kölluð til 20 sinnum vegna slysa og umferðaróhappa í umdæminu. Meðal annars handleggsbrotnaði keppandi í WOW Cyclothon þegar hann féll af hjóli sínu á Suðurlandsvegi við Ásmundarstaði í Rangárþingi.

Annar keppandi féll af hjóli sínu skammt austan við Djúpá á Mýrum á föstudag. Hann var fluttur til skoðunar á heilsugæslustöðinni á Höfn. Þar kom í ljós að hann var óbrotinn en með skrámur og fann til eymsla í skrokknum.

Um hádegi á föstudag varð harður árekstur á hringveginum við Stafafell í Lóni. Í bifreiðunum voru sjö manns, allt erlendir ferðamenn. Einn farþegi slasaðist lítils háttar á höfði. Ökumaður annarar bifreiðarinnar ók af hliðarvegi í veg fyrir hina bifreiðina sem var ekið eftir hringveginum.

Tveir ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir ávana- og fíkniefnum, einn fyrir ölvunarakstur og 48 fyrir hraðakstur.