Lögreglan var kölluð að skemmtistaðnum Happy Hour í Þorlákshöfn aðfaranótt laugardags vegna ölvaðs manns sem þar var til leiðinda.
Maðurinn hafði uppi dólgshátt þegar lögreglumenn komu á staðinn og varð ekki hjá komist að taka hann úr umferð. Hann var vistaður í fangaklefa.
Í dagbók lögreglunnar á Selfossi kemur einnig fram að tveir menn voru í síðustu viku handteknir í Þorlákshöfn vegna gruns um að þeir væru með fíkniefni. Við leit hjá þeim fannst lítilræði af kannabisefnum.
Þá voru tveir ökumenn kærðir fyrir ölvunarakstur í liðinni viku, einn fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og 39 ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur.