Dagbók lögreglu: Nokkur beinbrot færð til bókar

Í síðustu viku kærði lögreglan á Suðurlandi 38 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur. Lögreglumenn á Kirkjubæjarklaustri kærðu 13 þeirra á Suðurlandsvegi í nágrenni við Klaustur, tólf þeirra voru erlendir ökumenn.

Tveir mældust á 149 km hraða á klukkustund. Einn á 142, annar á 136 og aðrir ekki þar langt frá.

Þrír ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur og einn fyrir fíkniefnaakstur.

Tíu umferðaróhöpp voru skráð í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi í síðustu viku. Engin slys á fólki því tengdu.

Í síðustu viku var nokkuð um beinbrot. Stúlka handleggsbrotnaði á fimleikaæfingu í Þorlákshöfn. Erlend kona rann til í hálku á göngustíg sem liggur frá Víkurskála niður að fjöru. Hún úlnliðsbrotnaði. Þá hrasaði önnur erlend kona við Geysi og handleggsbrotnaði.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi kemur einnig fram að karlmaður var handtekinn á Hellu á miðvikudagskvöld vegna meints brots á nálgunarbanni. Hann var í haldi lögreglu á meðan frumrannsókn fór fram. Maðurinn var látinn laus eftir yfirheyrslu daginn eftir.

Fyrri greinEinar áfram formaður Ungra bænda
Næsta greinStarfsemi sláturhúss stöðvuð