Dagbók lögreglu: Naglföstum munum stolið úr húseignum

Aðfaranótt síðastliðins föstudags var tæplega 500 lítrum af olíu stolið af bílum Íslenska gámafélagsins sem voru innan læstrar girðingar á athafnasvæði félagsins í Hrísmýri á Selfossi.

Annað hvort hefur þjófurinn verið með lykil að hliðinu eða hreinlega farið yfir girðinguna með tilheyrandi brölti.

Þá var Weber gasgrilli og tveimur 10 kílóa gaskútum stolið um síðustu helgi úr orlofshúsi Eflingar sem er við Nónhólsbraut í Brekkuskógi.

Aukist hefur að lögreglu hafi borist kærur vegna gripdeilda úr verslunum. Í flestum tilvikum hefur verið hægt að upplýsa þau mál þar sem viðkomandi einstaklingar þekktust í eftirlitsmyndavélum.

Einnig hefur ein og ein kæra hefur borist frá fjármálafyrirtækjum vegna þjófnaða á innréttingum og öðrum föstum munum úr húseignum sem seldar hafa verið á nauðungaruppboðum.

Í liðinni viku voru þrettán ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur, tveir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og tveir fyrir akstur undir áfengisáhrifum.

Fyrri greinHamar tapaði í baráttuleik
Næsta greinSuðurnesjamenn fá afnot af skálanum í Leppistungum