Dagbók lögreglu: Mörg umferðaróhöpp

Alls voru bókuð um 43 verkefni hjá lögreglunni á Hvolsvelli síðastliðna viku þar af fimm umferðaróhöpp.

Færð var leiðinleg í umdæminu og mörgum ökumönnum var hált á svellinu.

Sl. þriðjudag var tilkynnt um útafakstur austan við Hvolsvöll. Tvennt var í bifreiðinni en þau leituðu sjálf á heilsugæsluna á Hvolsvelli. Sama dag hafnaði bifreið útaf veginum á Meðallandsvegi til móts við Efri-Vík. Ekki urðu slys á fólki og litlar sem engar skemmdir urðu á bifreiðinni.

Á fimmtudag hafnaði bifreið útaf veginum austan við Hvolsvöll. Engin slys urðu á fólki. Að kvöldi sama dags hafnaði bifreið út af veginum austan við Kúðafljót og valt á hliðina. Bifreiðin skemmdist nokkuð en ekki urðu meiðsl á fólki.

Á laugardag varð harður árekstur á Landvegi. Þar missti annar ökumaðurinn stjórn á bifreið sinni í hálku og fór yfir á rangan vegarhelming í veg fyrir bifreið sem kom úr gangstæðri átt. Ökumenn beggja bifreiða voru fluttir með sjúkrabifreið á sjúkrahús í Reykjavík til aðhlynningar. Annar þeirra reyndist talsvert slasaður.

Fjögur umferðarlagabrot voru kærð í vikunni og tveir voru staðnir að því að aka of hratt.

Í desember mun lögreglan á Hvolsvelli verða með hert eftirlit með ölvunarakstri eins og venjulega á þessum árstíma. Lögreglan minnir á alvarleika þess að setjast undir stýri og aka eftir að hafa neytt áfengis.