Dagbók lögreglu: Leigði ótryggðan bílaleigubíl

Um helgina kærði lögreglan á Suðurlandi 66 ökumenn fyrir hraðakstur, þrjá fyrir ölvunarakstur og einn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.

Lögreglumenn á Kirkjubæjarklaustri stöðvuðu erlendan ökumann sem ók of hratt á þjóðvegi 1 við Klaustur í gærdag. Ökumaðurinn var á bílaleigubíl sem síðar kom í ljós að var ótryggður. Í dagbók lögreglunnar segir að það sé mjög alvarlegt að verið sé að leigja ökutæki sem eru ótryggð og er málið í rannsókn.

Bílvelta varð á laugardagskvöld á Laugarvatnsvegi við Laugardalshóla. Vitni sem komu skömmu síðar að vettvangi sáu til tveggja manna á stjákli við bílinn. Þegar lögregla og sjúkralið kom á staðinn var annar maðurinn farinn af vettvangi en hinn á staðnum enda slasaður. Hann var fluttur á slysadeild til frekari skoðunar.

Þegar hann var laus af slysadeildinni var hann handtekinn og yfirheyrður af lögreglu. Hinn maðurinn gaf sig fram síðar. Hvorugur gekkst við akstrinum en þeir eru báðir grunaðir um ölvun. Málið er í rannsókn.

Í dagbók lögreglunnar kemur einnig fram að minniháttar líkamsárás átti sér stað utan við skemmtistaðinn Frón á Selfossi aðfaranótt sunnudags. Kýtingar voru á milli manna sem leiddu til þess að einn var sleginn hnefahöggi í andlitið. Árásarþolinn leitaði til læknis sem úrskurðaði að maðurinn hefði hlotið minniháttar áverka.

Fyrri greinFundu amfetamín í strætó
Næsta grein„Borg í sveit“ á laugardag