Dagbók lögreglu: Landi og bruggtæki gerð upptæk

Mikill erill var hjá lögregumönnum á Suðurlandi í síðustu viku. Alls voru 358 verkefni skráð í dagbók lögreglunnar og er það talsverð aukning frá því sem verið hefur undanfarið.

Ungur karlmaður var handtekinn í síðustu viku í Vík í Mýrdal grunaður um að hafa brotist inn í bifreið sem stóð skammt frá Víkurskála og stolið úr honum munum. Við eftirgrennslan í þorpinu fannst hann á akstri. Maðurinn var handtekinn og færður til yfirheyrslu. Hann játaði þjófnaðinn auk þess að hafa ekið bifreið undir áhrifum fíkniefna.

Aðfaranótt miðvikudags var bifreið stolið á Selfossi. Bifreiðin fannst óskemmd í Reykjavík á laugardag. Óupplýst er hver tók bifreiðna.

Nokkrir lítrar af landa og bruggtæki voru gerð upptæk á Flúðum á fimmtudag. Lögreglu höfðu borist upplýsingar um landann. Karlmaður játaði að eiga landann og tólin. Hann verður kærður fyrir verknaðinn.

Eitthundrað og fjórtán ökumenn voru í vikunni kærðir fyrir umferðarlagabrot. Þar af voru 88 kærðir fyrir hraðakstur, fjórir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og einn fyrir ölvunarakstur. Umferðardeildarlögreglumenn voru í eftirliti með öxulþunga, ökuritum, hvíldartíma ökumanna og ýmsum öðru sem snýr að umferðinni.

Fyrri greinKönnuðust ekki við sláttuvélina, gasgrillið og flatskjáinn í bílnum
Næsta greinSinueldur í Hellisskógi