Dagbók lögreglu: Innbrot og ökklabrot

Á laugardag var tilkynnt var um innbrot í sumarbústað við Sogsbakka í Grímsnesi. Ekki liggur fyrir með vissu hvenær innbrotið átti sér stað né hverju var stolið.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Selfossi.

Skömmu fyrir hádegi á sunnudag var óskað aðstoðar að sumarbústaðabyggð í Miðengi í Grímsnesi vegna konu sem rann til á steini með þeim afleiðingum að hún ökklabrotnaði. Konan var flutt með sjúkrabíl á Slysadeild Landspítala þar sem gert var að brotinu.

Maður féll af þaki sumarbústaðar í Grímsnesi síðastliðinn laugardag. Hann var fluttur með sjúkrabíl á heilsugæsluna á Selfossi. Hann mun hafa hlotið minni háttar áverka.

Fimm ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur, einn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og 33 fyrir hraðakstur.