Dagbók lögreglu: Innbrot í Odda

Rétt fyrir miðnætti síðastliðið tóku lögreglumenn á eftirlitsferð um Selfoss eftir því að hurð á vesturhlið Fjölbrautaskóla Suðurlands, Odda, hafði verið spennt upp og einhver farið inn í húsið.

Ekki var séð að neinu hafi verið stolið né meira tjón unnið en á hurðinni.

Fjórum 18 tommu álfelgum með lélegum dekkjum var stolið af lóð í Heiðmörk 2 á Selfossi á tímabilinu 26. maí til 11. júní sl. Felgurnar eru svartar með silfurlituðum kanti. Þeir sem veitt geta upplýsingar eru beðnir að hafa samband við lögreglu í síma 444 2010.

Í vikunni voru skráð nítján slys og umferðaróhöpp, meðal annars á Akureyjarvegi í Rangárþingi þar sem varð alvarlegt fjórhjólaslys. Við Vatnsvik í Þingvallaþjóðgarðinum féll veiðimaður í vatnið og missti meðvitund. Maður, honum ótengdur, sem var nærri kom honum til hjálpar. Maðurinn var fluttur með þyrlu á Slysadeild Landspítala. Lítilli flugvél hlekktist á á Hellisheiði við nauðlendingu. Vélin hafði orðið bensínlaus. Tvennt var í vélinni. Þau sluppu með minni háttar meiðsl.

Eldur kom upp í hjólbarða vöruflutningabifreiðar á hringveginum við Þorgeirsstaði í Lóni á miðvikudagskvöld. Slökkvilið var kallað til og réði fljótt niðurlögum eldsins. Bifreiðin er mjög mikið skemmd eftir brunan.

Tvö minniháttar fíkniefnamál komu til kasta lögreglu. Í öðru tilvikinu var um að ræða gest sem dvaldi á hóteli á Hvolsvelli og í hinu maður sem ók bifreið sinni í Eldhrauni, sá reyndist vera undir fíkniefnaáhrifum við aksturinn.

Í vikunni voru skráð 108 umferðarlagabrot. Þar af voru 95 kærðir fyrir hraðakstur. Enn hækkar talan. Fimm voru kærðir fyrir ölvunarakstur og fjórir fyrir fíkniefnaakstur.

Fyrri greinÞrjú útköll vegna heimilisofbeldis
Næsta greinKviknaði í bíl eftir veltu