Dagbók lögreglu: Hrasaði og mjaðmagrindarbrotnaði á Þingvöllum

Tveir karlmenn voru handteknir á Selfossi í liðinni viku fyrir að vera með í vörslum sínum amfetamín og kannabisefni. Í báðum tilvikum var um lítið magn að ræða og viðurkenndu mennirnir brot sín.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Þar kemur einnig fram að karlmaður á Hellu hafi hótað fyrrverandi sambýliskonu sinni að vinna henni mein. Brotaþoli hefur gert kröfu um nálgunarbann og er málið í vinnslu hjá lögreglu.

Kona mjaðmagrindarbrotnaði á Þingvöllum þegar hún hrasaði er hún var að stíga út úr rútu. Hún var flutt með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítalans.

Í vikunni voru fjórir ökumenn kærðir fyrir fíkniefnaakstur, þrír fyrir ölvunarakstur og fimm fyrir hraðakstur. Þá voru 26 umferðaróhöpp og slys skráð í dagbók lögreglu. Alvarlegast var árekstur tveggja bifreiða á einbreiðri brú yfir Stígá í Öræfasveit. Brúin er skammt frá Hólá þar sem banaslys varð á annan dag jóla á einbreiðri brú.

Fyrri greinTólf þúsund varphænur fá að ganga frjálsar úti
Næsta greinHrafnhildur valin í A-landsliðið