Dagbók lögreglu: Hraðakstur og fjögur umferðarslys

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á Suðurlandi kærði 27 ökumenn fyrir of hraðan akstur um síðustu helgi en sá sem hraðast ók var 141 km/klst hraða. Alls voru níu ökumenn kærðir fyrir að aka bifreiðum sínum á yfir 120 km/klst hraða „sem okkur þykir frekar slæmt og ekki til eftirbreytni,“ segir í dagbók lögreglunnar.

Lögreglan fékk tilkynningu um fjögur umferðarslys í umdæminu. Ökumaður velti bifreið sinni á Ölfusvegi, skammt frá Kotströnd. Þrennt var í bílnum og voru þau öll flutt til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi með minniháttar meiðsli.

Þá slasaðist ökumaður lítilsháttar þegar hann velti bíl sínum á Laugarvatnsvegi og 13 ára drengur fékk höfuðáverka og var fluttur á sjúkrahús eftir að hafa ekið rafmagnshlaupahjóli í holu og dottið á Höfn í Hornafirði. „Því miður var drengurinn hjálmlaus og viljum við eindregið hvetja ökumenn þessara fararskjóta að nota hjálma við aksturinn,“ segir lögreglan.

Fjórða slysið varð á sunnudagsmorgun þegar bíll lenti úti í Markarfljóti. Í dagbók lögreglunnar segir að kona sem ók bílnum hafi ofkælst við volkið í ánni en þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði konunni og flutti hana á slysadeild Landspítalans í Fossvogi.

Fyrri greinRáðherra fundar um landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks
Næsta greinArnar Helgi verðlaunaður fyrir framúrskarandi lokaverkefni