Dagbók lögreglu: Hraðakstur í V-Skaftafellssýslu

Lögreglan á Mýrdalssandi. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Jóhanna S. Hannesdóttir

Lögreglan á Suðurlandi kærði 27 ökumenn fyrir hraðakstur í liðinni viku.

Einn þeirra mældist á 161 km/klst hraða á Suðurlandsvegi við Laufskálavörðu og hlýtur viðeigandi sekt og sviptingu að launum. Annar íslenskur ökumaður mældist á 142 km/klst hraða á Suðurlandsvegi við Dýralæk. Lögreglan segir ljóst að lítið megi út af bregða þegar svo hratt er ekið.

Einn ökumaður var stöðvaður á Suðurlandsvegi vestan við Selfoss á laugardag og er hann grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og um vörslu fíkniefna.

Tveir voru kærðir fyrir að nota síma undir stýri án þess að vera með handfrjálsan búnað og sjö umferðaraóhöpp voru tilkynnt til lögreglu í vikunni sem leið. Í einu þeirra kvartaði ökumaður undan svima og fékk skoðun og aðhlynningu í sjúkrabíl vegna þess. Önnur óhöpp voru án meiðsla samkvæmt tilkynningum til lögreglu.