Dagbók lögreglu: Hraðskreiðum ferðamönnum fjölgar

Lögreglan á Suðurlandi hafði í mörg horn að líta í liðinni viku. Alls var 81 ökumaður kærður vegna umferðarlagabrota, þar af voru 63 kærðir fyrir hraðakstur á þjóðvegi 1.

Sá sem hraðast ók var mældur á 152 km/klst. en 33 ökumannanna óku á yfir 120 km/klst. Af öllum þeim kærðu voru erlendir ferðamenn 46 eða 73%. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að svo virðist sem hlutfallið hafi farið hækkandi að undanförnu.

Tveir voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna, tveir fyrir ölvunarakstur og tveir fyrir akstur sviptir ökuréttindi. Annar þeirra var jafnframt kærður fyrir hrað- og fíkniefnaakstur.

Kvenmannsreiðhjóli stolið
Kvennmannsreiðhjóli var stolið frá Álftarima 3 á Selfossi á milli klukkan 18 og 22 á annan í hvítasunnu. Hjólið er grátt að lit með stjörnum í gjörð, körfu framan við stýri og með svartri bjöllu. Eigandinn sem hefur aðeins reiðhjólið til að komast á milli staða saknar þess sárt. Þeir sem hafa séð reiðhjólið eða geta veitt upplýsingar um hvar það er niðurkomið vinsamlegast hringið í 444 2010.

Sjö óhöpp án alvarlegra meiðsla
Í síðustu viku var lögreglan á Suðurlandi sjö sinnum kölluð út vegna umferðaróhappa sem voru án alvarlegra meiðsla á fólki. Sex sinnum var tilkynnt um slys á fólki. Var um að ræða hestaslys og slys þar sem fólk hafði misst fótanna með minni háttar afleiðingum.

Fyrri greinEldur komst í pappaklæðningu
Næsta greinHrútur braut rúður í veiðihúsi