Dagbók lögreglu: Höfuðhögg og hraðakstur

Maður var sleginn í höfuðið á Eyrarbakka í byrjun síðustu viku. Sjúkralið var kallað á vettvang og gerðu sjúkraflutningamenn að skurði sem maðurinn hlaut við höggið.

Um minni háttar áverka var að ræða og ætlar árásarþolinn ekki að leggja fram kæru.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Selfossi.

Í síðustu viku var lögreglu tilkynnt um níu slys, umferðar- og frístundaslys. Engin alvarleg meiðsli urðu á fólki nema í einu tilviki þar sem kona féll í Hveragerði og brotnaði illa á fæti.

Átján ökumenn voru kærðir fyrir umferðarlagabrot þar af tveir fyrir ölvunarakstur og ellefu fyrir hraðakstur.

Fyrri greinÍ gæsluvarðhald vegna gruns um íkveikjur
Næsta greinHreint hjarta frumsýnd á Selfossi