Dagbók lögreglu: Hnökkum stolið á Stokkseyri

Brotist var inn í hesthús í Lyngholti á Stokkseyri síðastliðið miðvikudagsdkvöld á milli klukkan 21:00 og 23:30 og þaðan stolið fimm hnökkum, hjálmi og beislum.

Sá sem þar var að verki þurfti að brjóta upp hengilás og renniloku til að komast inn í reiðtygjageymslu í hesthússins. Lögreglan biður þá sem veitt geta upplýsingar um málið að hafa samband í síma 480 1010.

Í dagbók lögreglunnar kemur fram að þrír ökumenn hafi verið kærðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og einn fyrir ölvunarakstur. Afskipti voru höfð af fjórum ökumönnum vegna hraðaksturs.

Þá slasaðist maður á fæti í síðustu viku þegar hann féll af vélsleða þar sem hann var á ferð ásamt fleirum á Skjaldbreið. Félagar hans fluttu hann til móts við sjúkrabifreið sem kom honum áfram á slysadeild.

Fyrri grein„Leyndardómar Suðurlands“ lengja ferðamannatímabilið
Næsta greinGuðdómlegur kjúklingabaunaréttur