Dagbók lögreglu: Fundu tíu kannabisplöntur á Selfossi

Harður árekstur tveggja bifreiða varð á Laugarvatnsvegi við Miðdal á föstudagskvöld. Ökumaður annarar bifreiðarinnar mun hafa ekið yfir á rangan vegarhelming.

Snjókóf var þegar slysið átti sér stað og skyggni lélegt. Farþegi í annarri bifreiðinni hlaut minniháttar meiðsli en báðar bifreiðarnar voru óökufærar eftir áreksturinn.

Þetta, ásamt eftirfarandi, kemur meðal annars fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Karlmaður á reiðhjóli varð fyrir bifreið á gatnamótum Víkurbrautar og Kirkjubrautar á Höfn í Hornafirði síðdegis á föstudag. Hjólreiðamaðurinn slasaðist á höfði og öxl. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á heilsugæslustöðina á Höfn þar sem hann var lagður inn yfir nótt í öryggisskyni. Snjókoma og slæm akstursskilyrði voru þegar slysið varð. Málið er í rannsókn.

Tveir ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna, einn fyrir ölvunarakstur og þrír fyrir hraðakstur.

Lögreglumenn á Selfossi lögðu hald á tíu kannabisplöntur sem voru í ræktun í íbúðarhúsi á Selfossi. Tveir karlmenn voru yfirheyrðir vegna málsins sem er í rannsókn.

Fyrri greinSleginn með flösku í höfuðið
Næsta greinAndlát: Einar Øder Magnússon