Dagbók lögreglu: Fuku útfyrir veg við Þjórsá

Helgin var, til þess að gera, róleg hjá lögreglunni á Suðurlandi. Mikill viðbúnaður var á laugardag vegna óveðursspár en tíu tilkynningar bárust til lögreglu um aðstoð vegna veðurtjóns í Árnes- og Rangárvallasýslum.

Ekki var um verulegt tjón að ræða.

Ökumaður og farþegi slösuðust í bílveltu á Suðurlandsvegi austan Þjórsár uppúr klukkan 18 í gær. Bifreiðinni var ekið í austur þegar snörp vindhviða skall á henni. Við það missti ökumaður stjórn á bifreiðinni sem valt. Þarna voru á ferð tveir erlendir karlmenn. Annar þeirra slasaðist á höfði og grunur um að hinn hafi viðbeinsbrotnað. Mennirnir voru fluttir með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala þar sem gert var að sárum þeirra.

Um kvöldmatarleyti í gær lentu nokkrir ökumenn í vandræðum á Hellisheiði vegna veðurs og snjókrapa á veginum. Ekki kom til lokunar vegna þess því fljótt leystist úr þeim vanda.

Tilkynnt var um þrjár minniháttar líkamsárásir um helgina.

Einn ökumaður var kærður fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og sex fyrir hraðakstur.

Fyrri greinEllefu milljóna króna halli á rekstrinum
Næsta greinLokunarsvæðið við Holuhraun minnkað