Dagbók lögreglu: Fimmtán ára undir stýri

Um helgina voru skráð 124 verkefni hjá lögreglunni á Suðurlandi. Átta ökumenn voru kærðir fyrir að vera ekki með öryggisbelti, þrír fyrir hraðakstur, tveir fyrir að tala í síma í akstri án þess að nota handfrjálsan búnað.

Í Hveragerði höfðu lögreglumenn afskipti af ökumanni sem reyndist ekki með ökuréttindi enda ekki nema 15 ára gamall. Einn var staðinn að því að aka sviptur ökuréttindum. Sekt við slíku er 60 þúsund krónur við fyrsta brot.

Söngvakeppni félagsmiðstöðva á Suðurlandi fór fram í íþróttahúsinu á Kirkjubæjarklaustri síðastliðið fimmtudagskvöld. Lögreglumenn á Klaustri höfðu eftirlit með samkomunni þar sem vel á fjórðahundrað frisk og heilbrigð ungmenni skemmtu sér hið besta. Gleði og fjör þar.

Annað var uppi á teningnum á vínveitingastað í Þorlákshöfn þar sem lögreglumenn í eftirlitsferð komu að fjórum ungmennum, á sextánda og sautjánda aldursári, inni á staðnum eftir miðnætti á föstudag. Ungmennunum var komið til forráðamanna sinna auk þess mun barnaverndaryfirvöldum verða tilkynnt um atvikið og veitingamaðurinn kærður fyrir að hleypa ungmennunum inn í húsið.

Fyrri greinSlógust í skoðunarferð um Suðurland
Næsta greinFyrirliðinn hættur hjá Hamri