Dagbók lögreglu: Fimm teknir ölvaðir undir stýri

Lögreglan á Selfossi hélt uppi öflugu umferðareftirliti í sýslunni um helgina og verður því haldið áfram framyfir áramót.

Í dagbók lögreglunnar kemur fram að nokkrir ökumenn hafi tekið þá óskynsamlegu ákvörðun að aka eftir að hafa neytt áfengis eða fíkniefna. Fimm ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur og tveir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Tveir voru kærðir fyrir að aka ökutæki sviptir ökuréttindum.

Lögregla hafði afskipti af tveimur mönnum í liðinni viku sem voru með neysluskammt af kannabis og örvandi fíkniefnum í fórum sínum.

Hálkan og ófærðin tók sinn toll í vikunni. Skráð voru fjórtán umferðaróhöpp, ýmist árekstrar eða bílveltur, en ekki en ekki urðu alvarleg slys á fólki. Í einu tilviki missti ökumaður stjórn á bifreið sinni neðst í Kömbum. Bifreiðin hafnaði á vegriði sem kom í veg fyrir að hún héldi áfram yfir á hinn vegarhelminginn þar sem á sama tíma voru bifreiðar að koma á móti upp Kamba. Augljóslega hefði þar getað orðið alvarlegt slys hefið vegriðið ekki skilið á milli akreina.

Fyrri greinHeldur lakari árangur í dagskóla
Næsta greinJötunn vélar opna á Egilsstöðum