Dagbók lögreglu: Erlendir ferðamenn á pinnanum

Þrátt fyrir snjó og hálku kærði lögreglan á Suðurlandi sjö ökumenn fyrir hraðakstur í liðinni viku. Sex þeirra voru á ferðinni austan Þjórsár.

Ökumennirnir voru, að einum undanskildum, erlendir ferðamenn.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar. Þar er einnig greint frá þriggja bíla árekstri sem varð neðarlega í Kömbum síðdegis í gær, sunnudag. Enginn slasaðist en talsvert tjón varð á ökutækjunum.

Einn ökumaður var kærður fyrir ölvunarakstur og annar fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna í liðinni viku.

Þrír eigendur ökutækja voru kærðir fyrir að vera með ótryggð ökutæki í umferð. Sekt við því er 30.000 krónur. Lögreglan skorar á alla að standa skil á ábyrgðartryggingum ökutækja sinna. Það er skráður eigandi eða umráðamaður sem ber ábyrgð á því að ábyrgðartrygging sé í gildi. Ef ökumaður ótryggðs ökutækis veldur tjóni verður hann að bæta það.

Í síðustu viku eru skráð vel á annað hundrað verkefna í dagbók lögreglunnar, önnur en þau að sinna lögbrotum og slysförum. Í dagbók lögreglunnar segir að aðstoð við borgarana sé stór þáttur í störfum lögreglumanna. Þau verkefni eru af ýmsum toga en skila lögreglumönnum ánægju og hvata með því að vera öðrum að liði.

Fyrri greinSleðamaðurinn ekki alvarlega slasaður
Næsta greinSamrekstri skóla hætt