Dagbók lögreglu: Ennþá á nagladekkjum

Lögreglan á Selfossi stöðvaði ökumann á Suðurlandsvegi í liðinni viku en hann ók ennþá um á negldum dekkjum.

Allir frestir eru að sjálfsögðu úti um slíkt og því var sá sem stöðvaður sektaður um 25 þúsund krónur fyrir brot sitt.

Þá voru 39 ökumenn stöðvaðir fyrir að aka of hratt í Árnessýslu. Sá sem hraðast ók var á 126 km/klst hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst.

Einn var kærður fyrir að aka undir áhrifum áfengis og tveir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Tveir voru kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti við akstur bifreiða sinna.

Númer voru tekin af tveimur ökutækjum sem reyndust ótryggð í umferðinni.

Annars var liðin vika í heildina frekar róleg hjá lögreglunni á Selfossi. Umferð um sýsluna var hins vegar mikil, fjölmennt á tjaldstæðum og stórir viðburðir víða.

Fyrri greinSextán ára undir stýri
Næsta greinÁslaug lætur af störfum