Dagbók lögreglu: Eldri ökumaður slæm fyrirmynd

Þrettán ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar á Selfossi í liðinni viku.

Hraðast ók maður á sextugsaldri á Hellisheiði 139 km/klst þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst og verður hann vart talinn til góðrar fyrirmyndar sér yngri ökumönnum í umferðinni, segir í dagbók lögreglunnar.

Sjö umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu öll án teljandi slysa. Einn ökumanna úr þessum óhöppum svaf úr sér áfengisvímu í klefa lögreglu í nótt en bifreið hans lenti út af Þingvallavegi við Kjósaskarð. Hann var látinn laus undir hádegi í dag eftir yfirheyrslu.

Einn ökumaður var kærður fyrir að aka undir áhrifum ávana og fíkniefna en í þvagi hans greindist THC, sem kemur fram eftir kannabisneyslu.

Blóðsýni hefur verið sent rannsóknarstofu Háskólans til greiningar og hlýtur málið framgang eftir þeim niðurstöðum sem þaðan fást.

Fyrri greinHandleggsbraut mann með strákústi
Næsta greinFæreysk stórhátíð á Stokkseyri