Dagbók lögreglu: Ekkert lát á olíuþjófnaði

Umferð var talsverð um helgina í umdæmi lögreglunnar á Selfossi og gekk vel utan hvað margir óku of hratt og voru 59 ökumenn stöðvaðir vegna þess.

Erlendir ferðamenn áttu þar stóran hlut að máli og í dagbók lögreglunnar segir að okkur sem hefur verið sagt að þeir væru svo agaðir í umferðinni eigum erfitt með að skilja þetta.

Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og tveir fyrir ölvunarakstur. Nokkrir hafa verið kærðir fyrir réttindaleysi og að hafa ekki verið með ökuskírteini meðferðis.

Í síðustu viku var brotist inn í hesthús að Faxabraut 8 í Þorlákshöfn og þaðan stolið hnakk. Annað var látið óhreyft í hesthúsinu.

Ekkert lát er á olíuþjófnaði af vörubifreiðum og vinnuvélum. Um helgina var um 600 lítrum stolið af vinnuvél sem stóð við Grafningsveg skammt frá bænum Hlíð. Lögreglan biður þá sem geta veitt upplýsingar um þessa þjófnaði að hafa samband í síma 480 1010.

Tvö minni háttar fíkniefnamál komu upp um helgina þar sem einstaklingar voru með kannabisefni í vörslum sínum.

Fyrri greinTöluvert af fölsuðum skilríkjum í umferð
Næsta greinHvolsvallarlöggan í háloftunum