Dagbók lögreglu: Buster böstaði fimm

Lögreglumenn hafa haldið uppi öflugu umferðareftirliti á Selfossi, Hveragerði, Þorlákshöfn og víðar um helgina.

Afskipti voru höfð af níu ökumönnum vegna hraðaksturs, fjórum sem voru að tala í farsíma án handfrjáls búnaðar, þremur sem ekki voru með öryggisbelti og einum sem grunaður er um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna auk þess sem hann var ekki með ökuréttindi.

Aðfaranótt laugardags ók ölvaður ökumaður útaf í Svínahrauni. Auk þess að hafa ekið ölvaður hafði hann ekið sviptur ökurétti. Ökumaðurinn var handtekinn og yfirheyrður í lögreglustöð.

Sex minni háttar fíkniefnamál komu upp á Selfossi um helgina í tengslum við frumkvæðisvinnu lögreglu. Fíkniefnahundurinn Buster kom við sögu í fimm tilvikanna. Þeir sem áttu hlut að máli voru með neysluskammt af kannabis. Einn viðurkenndi að hafa selt öðrum gramm af grasi.
Fyrri greinRafstöð stolið í Hveradölum
Næsta greinSidnei Moss í Hamar