Dagbók lögreglu: Brotist inn í tvo bústaði

Hjá lögreglumönnum á Selfossi var í nógu að snúast þessa helgi þar sem hátt í 150 verkefnum þurfti að sinna.

Margt fólk var á ferðinni og fjöldi nýtt sér að taka auka frídag á föstudag og lengja með því helgina.

Tilkynnt var um innbrot í tvo sumarbústaði í landi Kárastaða í Þingvallasveit. Innbrotin hafa átt sér stað frá því um miðjan maí þar til fyrir helgi. Úr öðrum bústaðnum var stolið flatskjá en ekki liggur fyrir hvort einhverju var stolið úr hinum bústaðnum.

Aðfaranótt sunnudags var stór rúða brotin í verslun TRS á Selfossi. Ekki er vitað hver braut rúðuna og biður lögregla þá sem veitt geta upplýsingar um að hafa samband í síma 480 1010.

Tíu ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur í vikunni og tveir fyrir ölvunarakstur.