Dagbók lögreglu: Braut gegn nálgunarbanni

Lögreglumenn á Hvolsvelli voru kallaðir til um helgina vegna manns sem hafði í hótunum við einstakling sem hann var í nálgunarbanni við.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi kemur fram að maðurinn verði kærður fyrir brot gegn nálgunarbanni.

Í dagbókinni kemur einnig fram að frá síðastliðnum fimmtudegi til dagsins í dag hafa 35 ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur. Sá sem fór hraðast mældist á 157 km hraða á vegarkafla við Kirkjubæjarklaustur.

Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að vera ekki með ökuritaskífu eða aksturskort við akstur ökutækis sem ber aðhafa ökurita. Sekt við því broti er 80 þúsund krónur. Einn ökumaður var kærður fyrir að hafa verið á breyttu ökutæki en ekki fært það til skoðunar.

Fyrri greinBíða svara ráðherra
Næsta greinHúsráðandi náði sjálfur að slökkva eldinn