Dagbók lögreglu: Amfetamín fannst á Litla-Hrauni

Hjá lögreglunni á Suðurlandi voru 262 verkefni skráð í síðustu viku. Í umdæminu voru 33 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur þar af fimmtán á svæðinu frá Vík austur að Höfn.

Tveir ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur.

Þrjár minniháttar líkamsárásir voru kærðar á Selfossi og karlmaður í Þorlákshöfn var kærður fyrir að brjóta gegn nálgunarbanni.

Þá var tilkynnt var um innbrot í sumarbústað í landi Böðmóðsstaða í Bláskógabyggð. Við rannsókn kom í ljós að munir sem teknir voru úr bústaðnum höfðu verið í bíl tveggja manna sem lögreglan handtók fyrir skömmu eftir innbrot í verslun á Laugarvatni.

Í dagbók lögreglunnar kemur einnig fram að smáskammtur af amfetamíni fannst í klefa hjá fanga á Litla Hrauni í liðinni viku. Við yfirheyrslu viðurkenndi fanginn að eiga efnið. Efnið verður sent til efnagreiningar og ákvörðun um framhald málsins miðast við niðurstöðu hennar.

Fyrri greinErfitt að fá farþega til að nota öryggisbelti
Næsta greinSelfoss semur við þrjá unga leikmenn