Dagbók lögreglu: Amfetamín fannst á Litla-Hrauni

Hjá lögreglunni á Suðurlandi voru 262 verkefni skráð í síðustu viku. Í umdæminu voru 33 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur þar af fimmtán á svæðinu frá Vík austur að Höfn.

Tveir ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur.

Þrjár minniháttar líkamsárásir voru kærðar á Selfossi og karlmaður í Þorlákshöfn var kærður fyrir að brjóta gegn nálgunarbanni.

Þá var tilkynnt var um innbrot í sumarbústað í landi Böðmóðsstaða í Bláskógabyggð. Við rannsókn kom í ljós að munir sem teknir voru úr bústaðnum höfðu verið í bíl tveggja manna sem lögreglan handtók fyrir skömmu eftir innbrot í verslun á Laugarvatni.

Í dagbók lögreglunnar kemur einnig fram að smáskammtur af amfetamíni fannst í klefa hjá fanga á Litla Hrauni í liðinni viku. Við yfirheyrslu viðurkenndi fanginn að eiga efnið. Efnið verður sent til efnagreiningar og ákvörðun um framhald málsins miðast við niðurstöðu hennar.