Dagbók lögreglu: Alvarleg slys með tveggja mínútna millibili

Liðin vika var erilsöm hjá lögreglumönnum á Selfossi. Skráð voru 144 verkefni af öllu tagi. Svo sem leit að fólki og úrlausn deilumála milli skyldra og óskyldra einstaklinga. Þá eru ótalin sakamálin sem töldu 44.

Ellefu slys og umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu. Alvarlegust voru tvö slys sem tilkynnt voru með tveggja mínútna millibili á föstudag. Annað á Langjökli við Skálpanes en hitt á Kjalvegi norðan við Kerlingarfjallaveg.

Þyrla var kölluð út og tók um borð konu sem fékk vélsleða yfir sig á jöklinum og karlmann sem féll af bifhjóli á Kjalvegi. Karlmaðurinn slasaðist alvarlega, hlaut fót- og viðbeinsbrot. Konan slapp með minni háttar meiðsli en um tíma var óttast að hún væri með innvortis áverka en svo reyndist ekki vera.

Brotist var inn í tvo sumarbústaði í Grímsnesi. Úr öðrum þeirra var stoðið hljómflutningstækjum. Útihurð var spennt upp í hinum bústaðnum. Svo virðist sem eftirlitsmyndavél fyrir innan dyrnar hafi fælt innbrotsþjófinn frá þar sem engu var stolið úr bústaðnum.

Þrjár minniháttar líkamsárásir voru kærðar og eru þær til rannsóknar hjá rannsóknardeild.

Fyrri greinLeitað að Sigga, Sidda eða Silla
Næsta greinStrákarnir okkar: Viðar kominn yfir 20 mörk