Dagbók lögreglu: Á 145 km/klst hraða á Hellisheiði

Tíðindalítil helgi er liðin hjá lögreglunni á Selfossi og lögreglumenn sáttir með flest, einkum þó að engin alvarleg óhöpp áttu sér stað. Hins vegar er ýmislegt uppi á borðum sem leysa þarf úr.

Rétt fyrir klukkan fimm í morgun, mánudag, höfðu lögreglumenn afskipti af tæplega 17 ára gömlum dreng þar sem hann ók bifreið um Hellisheiði á 145 km hraða án ökuréttinda þar sem hann var ekki kominn með aldur til þess. Hann viðurkenndi brot sín.

Á fimmtudag var ökumaður staðinn að því að aka á 100 km hraða eftir Langholti á Selfossi þar sem hámarkshraði er 50 km. Fimmtán aðrir ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur í síðustu viku.

Tveir ökumenn voru um helgina kærðir fyrir fíkniefnaakstur og tveir fyrir ölvunarakstur. Þrjár bifreiðar voru teknar úr umferð vegna þess að þær voru ótryggðar. Umráðamenn þeirra voru kærðir og hverjum þeirra verður gert að greiða 30.000 króna sekt.

Ellefu hegningarlagabrot voru kærð til lögreglunnar á Selfossi í liðinni viku þar af sjö þjófnaðarmál.

Fyrri greinMótmæla lokun Dyrhólaeyjar
Næsta greinÞrjú innbrot í Hveragerði