Dagbók lögreglu: 16 ára með fíkniefni

Fremur rólegt var hjá lögreglunni á Selfossi í síðustu viku. Fíkniefni voru gerð upptæk í bifreið á Selfossi en eigandi þeirra var 16 ára stúlka.

Lögreglumenn höfðu afskipti af ökumanni bílsins vegna gruns um að hann væri undir fíkniefnaáhrifum við aksturinn. Í bifreiðinni fannst lítilræði af fíkniefnum sem farþegi, 16 ára stúlka, gekkst við að eiga.

Aðfaranótt laugardags fóru lögreglumenn á skemmtistað í Þorlákshöfn til að kanna aldur gesta og leyfi. Þar voru öll leyfi til staðar og allt í “orden”.

Þrettán ökumenn voru kærðir fyrir umferðarlagabrot í síðustu viku. Þar af voru sex kærðir fyrir hraðakstur, tveir fyrir ölvunarakstur og einn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.

Þá var visakorti stolið af gesti veitingastaðar á Selfossi og tókst þjófnum að nýta sér það í fjögur skipti. Kortaþjófurinn er ófundinn.