Dagbók lögreglu: Þrír undir áhrifum fíkniefna

Lögreglan á Selfossi kærði þrjá ökumenn í síðustu viku fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna.

Tveir þeirra reyndust einnig sviptir ökurétti vegna fyrri brota í sama flokki.

Prófun á sýnum mannanna gaf svörun við amfetamíni, kókaíni og kannabisefnum en mis miklu þó. Blóðsýni verða send rannsóknarstofu Háskólans og fá málin framgang miðað við niðurstöðu þeirrar rannsóknar. Það sama á við blóðsýni manns sem stöðvaður var í almennu umferðareftirliti grunaður um ölvun við akstur.

Átján ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku. Af þeim greiddu níu sekt á staðnum en hinir níu fá sendan gíróseðil þar sem þeim verður boðið að ljúka málum sínum með greiðslu viðeigandi sektar.

Skráningarnúmer voru tekin af einni bifreið sem reyndist vera ótryggð í umferðinni.