Dagbók lögreglu: Þjófar víða á ferð

Sjö þjófnaðir voru kærðir til lögreglunnar á Selfossi í síðustu viku. M.a. var hjólbörðum á felgum stolið undan bifreið í Fosstúni á Selfossi og bifreiðin skilin eftir á trékubbum.

Þessi þjófnaður átti sér stað á athafnasvæði Guðmundar Tyrfingssonar ehf. í Fosstúni.

Tvær kærur voru lagðar fram vegna hnupls í Húsasmiðjunni á Selfossi og aðfaranótt fimmtudags var bensíni stolið af bifreið þar sem hún stóð við Bakkabraut í Reykholti. Þjófurinn braut rúðu í bifreiðinni til að opna bensínlokið og hlaust talsvert tjón af.

Þá var brotist var inn í bifreið við Álftarima 9 á Selfossi og stolið úr henni bassakeilu.

Tveir menn voru kærðir fyrir vörslu á kannbisefnum og komu bæði tilvikin upp við almennt umferðareftirlit lögreglunnar. Báðir einstaklingarnir viðurkenndu brot sín.

Hálkan tók einnig sinn toll í síðustu viku. Tólf umferðaróhöpp af ýmsum toga voru tilkynnt til lögreglu en engin alvarleg slys hlutust af þessum óhöppum.

Fyrri greinRjúpnaskyttur hurfu „eins og minkar í holu”
Næsta greinHafa miklar áhyggjur af löggæslumálum