Dagbók Hvolsvallarlögreglu: Ennþá von á hálku

Lögreglan á Hvolsvelli hvetur ökumenn til þess að skoða vel hvort tímabært sé að skipta yfir á sumardekkin. Enn er hálka að myndast á vegum í umdæminu.

Alls voru bókuð 58 verkefni hjá lögreglunni á Hvolsvelli síðastliðna viku.

Útafakstur var á Þórsmerkurvegi þar sem bifreið hafnaði ofan í skurði. Tvennt var í bifreiðinni og voru þau flutt á Heilsugæslustöðina á Hellu, en voru útskrifuð skömmu síðar án teljandi meiðsla.

Á fimmtudagsmorguninn var mikil hálka á Hvolsvelli og missti ökumaður vald á bifreið sinni sem rann yfir Austurveg og á steyptan brunn. Höggið var mikið og var bifreiðin mikið skemmd en ekki urðu slys á fólki við óhappið.

Um helgina snjóaði í Vestur-Skaftafellssýslu en snjóinn tók fljótt upp og hvarf. Tími nagladekkjanna var liðinn þann 15. apríl en lögreglan segir aðstæður verða að ráða í þessum efnum.

Í vikunni voru sextán ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt. Sá sem hraðast ók var mældur á 134 km hraða. Einn var mældur á 133 km hraða og annar á 130 km hraða. Við þessu liggja háar sektir.

Fyrri greinLést í Herdísarvík
Næsta greinBirtingur besta nautið