Dagatalið rennur út eins og heitar lummur

Dagatal Félags sjúkraflutningamanna í Árnessýslu 2016 hefur runnið út eins og heitar lummur síðustu daga og nú fer hver að verða síðastur að krækja sér í eintak.

„Eins og venjulega fer ágóðinn af sölunni í að styrkja fjölskyldur langveikra barna og einnig í styrktar- og áfallasjóð sjúkraflutningamanna í Árnessýslu,“ sagði Stefán Pétursson, sjúkraflutningamaður, í samtali við sunnlenska.is. Undanfarin ár hafa sjúkraflutningamennirnir heimsótt fjölskyldurnar á aðfangadag og er stefnt að því að gera það einnig í ár.

„Við ætlum að styrkja tvær fjölskyldur í ár, en þetta er áttunda árið í röð sem við gefum út dagatal. Okkur hefur alltaf verið vel tekið og nú er upplagið að verða búið eins og venjulega,“ sagði Stefán ennfremur.

Á hverju ári hefur verið nýtt þema í dagatalinu en að þessu sinni eru í því myndir af börnum sjúkraflutningamannanna.

Dagatalið kostar 1.500 krónur og geta áhugasamir nálgast dagatalið hjá sjúkraflutningamönnunum sjálfum en þeir hafa verið á ferðinni í Bónus á Selfossi og í Hveragerði. Einnig er hægt að líta við í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi til að ná sér í eintak eða senda skilaboð á Facebooksíðu sjúkraflutninganna.

Einnig er tekið við frjálsum framlögum inn á reikning 0586-26-61090, kt: 500806-1090. Ágóðinn rennur allur til þessa góða málefnis.

Fyrri greinFannar Ingi kylfingur ársins í Hveragerði
Næsta greinDregið í jólahappdrætti unglingaráðs