Selfyssingurinn Daði Már Sigurðsson hefur verið ráðinn deildarstjóri nýs upplýsingatæknisviðs Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Hann hóf störf hjá stofnuninni í september 2024.
Daði Már er fæddur og uppalinn á Selfossi, gekk í Fjölbrautaskóla Suðurlands og nam síðan kerfisfræði við HR. Daði Már hóf starfsferilinn í upplýsingatækni sem tæknimaður hjá Opnum kerfum meðan hann bjó í Reykjavík. Þegar hann flutti aftur heim á Selfoss starfaði hann hjá TRS sem kerfisstjóri, en kemur til HSU frá Origo þar sem hann vann sem kerfisstjóri.
Samheldið tveggja manna teymi
Upplýsingatæknisviðið er ný deild innan HSU, en þessum málaflokki var áður nánast alfarið úthýst til þjónustuaðila. Brad Alexander Egan gekk svo til liðs við teymið í mars síðastliðnum.
„Brad hefur þjónustað stofnunina til margra ára og því mikill fengur að fá hann til liðs við okkur. Við tveir störfuðum lengi saman hjá TRS hérna á Selfossi á sínum tíma og þekkjum hvorn annan vel. Brad hefur sinnt notenda- og tækniþjónustu hjá HSU til fjölda ára og gengur alltaf hreint til verks,“ segir Daði Már í viðtali á heimasíðu HSU og hann er ánægður með nýja vinnustaðinn.
„Það er einstaklega góður starfsandi hérna og það kom mér líka skemmtilega á óvart að flest starfsfólk er opið fyrir nýjungum og breytingum. Það skemmir heldur ekki fyrir hvað það er stutt í vinnuna og ákveðið frelsi að þurfa ekki að ferðast yfir Hellisheiðina daglega. Það eru forréttindi að fá að starfa í sínum heimabæ.“
