Daði Geir gefur kost á sér hjá Framsókn

Daði Geir Samúelsson. Ljósmynd/Aðsend

Daði Geir Samúelsson frá Bryðjuholti í Hrunamannahreppi gefur kost á sér í 2.-4. sætið á framboðslista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi í komandi Alþingiskosningum.

Daði greinir frá þessu á Facebooksíðu sinni en hann hefur verið virkur í starfi ungra framsóknarmanna síðan 2017. Hann situr í stjórn Sambands ungra framsóknarmanna og einnig í stjórn Guðna, félags ungra framsóknarmanna í Árnes- og Rangárvallasýslu.

„Umhverfis-, atvinnu- og byggðamál brenna heitast á mér auk þess að efnahagsmál fanga athygli mína enda lítið hægt að gera nema fjármálin séu í lagi. Ég vil að passað sé vel upp á umhverfið og það sé virt en jafnframt nýtt á skynsaman hátt sem styður við atvinnu og byggðir um allt land. Tímarnir hafa sýnt okkur að með því að tryggja gott netsamband, um allt land, er hægt að vinna svo til hvar sem er á landinu og hvernig störf án staðsetningar raungerðust á einni nóttu og það var ekki eins mikið mál og oft hefur verið nefnt. Við þurfum að tryggja að sú þróun haldi sér og styðji við byggð um allt land. Við sem samfélag verðum aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn,“ segir Daði Geir í tilkynningunni.

Daði Geir er 26 ára rekstarverkfræðingur og starfar hjá fjármálasviði Reykjavíkurborgar þar sem hann fæst við áætlunargerð og uppgjör. Auk þess er hann formaður umhverfisnefndar Hrunamannahrepps, umsjónarmaður unglingadeildarinnar Vinds og meðlimur í Björgunarfélaginu Eyvindi.

„Ég nýti öll tækifæri sem ég fæ til að dansa, finnst fátt betra en að þvælast um íslenska náttúru hvort sem það er gangandi, ríðandi, keyrandi eða hjólandi. Ég lifi eftir því einfalda mottói að lífið er núna og þess þarf að njóta með bros á vör og sjá tækifærin og fegurðina sem leynist alls staðar,“ segir Daði Geir.

Lokað prófkjör Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi fer fram þann 10. apríl næstkomandi, þar sem kosið verður um sex efstu sætin á listnum.

Fyrri greinKynningarfundur vegna úthlutunar úr Uppbyggingarsjóði
Næsta grein7,5 milljónir króna til að styrkja sunnlenskar ræktunaraðferðir