D-listinn vill áfram loftborið hús

Gamla Hamarshöllin sem fauk í febrúar. Ljósmynd/Hveragerðisbær

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Hveragerðis lögðu fulltrúar D-listans til að aftur yrðu teknar upp viðræður við slóvenska fyrirtækið Duol, framleiðanda Hamarshallarinnar, og að gengið verði frá pöntun á nýjum dúk fyrir loftborið hús.

Þannig væri hægt að stefna að því að nýtt íþróttahús verði komið upp næsta vor og koma á eðlilegu íþróttastarfi hjá deildum Hamars.

„Iðkendafjöldinn hefur farið niður, deildir fá ekki jafn marga æfingatíma og þjálfarar og stjórnarmeðlimir deilda hafa verið að segja af sér og hætta,“ segir í greinargerð D-listans sem vill skoða aðrar lausnir fyrir framtíðar íþróttamannvirki bæjarins, til dæmis á Sólborgarsvæðinu.

Fulltrúar D-listans segja að tryggingar muni að miklu leiti bæta það tjón sem hlaust af við fall Hamarshallarinnar og því gæti kostnaður Hveragerðisbæjar við að endurreisa loftborið íþróttahús verið innan við 100 milljónir króna.

Meirihluti bæjarstjórnar felldi tillögu D-listans en fyrr í mánuðinum réð bærinn verkfræðing og arkitekt til að fylgja eftir vinnu hönnunarhóps og undirbúa útboðsgögn fyrir endurbyggingu Hamarshallarinnar úr föstum efnum.

Fyrri greinSelfoss niður í tíunda sæti og fær 100 þúsund króna sekt
Næsta greinElínborg Katla klár í slaginn