Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Árborg samþykkti á fjölmennum fundi í gærkvöldi að halda prófkjör vegna framboðs flokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum.
Prófkjörið verður haldið þann 7. mars næstkomandi og frestur til að tilkynna framboð er til 1. febrúar. Niðurstaða prófkjörsins verður bindandi fyrir sex efstu sætin.
Samkvæmt heimildum sunnlenska.is tilkynntu nokkrir um framboð á fundinum í gærkvöldi. Bragi Bjarnason, bæjarstjóri, hafði þegar lýst því yfir að hann vildi leiða listann, Sveinn Ægir Birgisson sækist eftir 2. sæti og Brynhildur Jónsdóttir 4. sæti en þau eru öll bæjarfulltrúar í dag.
Annar núverandi bæjarfulltrúi, Helga Lind Pálsdóttir, hyggst ekki gefa kost á sér en Kjartan Björnsson, forseti bæjarstjórnar, sækist eftir 6. sætinu og Þórhildur Ingvadóttir gefur kost á sér í 5. sæti. D-listinn hlaut sex bæjarfulltrúa í kosningunum 2022.

