Dæmdur fyrir innbrot í tugi bíla á Selfossi

Átján ára Selfyssingur var dæmdur sex mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Suðurlands í dag fyrir þjófnaði og tilraun til þjófnaða úr hátt í 40 bifreiðum á Selfossi í vetur.

Tæplega 40 bifreiðar eru tilgreindar í ákæruliðum en að auki fór ákærði inni í fjölda óþekktra bifreiða á tímabilinu frá nóvember 2009 til febrúar 2010.

Við húsleit hjá ákærða fannst töluvert magn af þýfi, m.a. diktafónn, vasahnífar, sólgleraugu, vasapeli, úr, iPod spilarar og 10 sterlingspund. Að auki hafði hann stolið myndavélum, GPS tækjum og fleiru smálegu úr ólæstum bifreiðum á Selfossi.

Ákærði játaði skýlaust brot sín en með brotum sínum rauf hann skilorð vegna eldri dóms. Með hliðsjón af brotaferli ákærða þótti Ástríði Grímsdóttur, dómara, sex mánaða fangelsi hæfileg refsins en með hliðsjón af ungum aldri ákærða og því að hann vill nýta sér úrræði í samstarfi við félagsmálayfirvöld, er refsingin skilorðsbundin til þriggja ára.

Ákærða var að auki gert að greiða verjanda sínum tæpar 113 þúsund krónur í sakarkostnað.

Fyrri greinSvava Hrönn fundin
Næsta greinUmferðaröngþveiti við Bröttufönn