Dæmd í fangelsi fyrir að kasta glasi í lögreglu

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag 23 ára konu á Selfossi í átta mánaða fangelsi fyrir að kasta bjórglasi í höfuð lögreglukonu. Sex mánuðir refsingarinnar eru skilorðsbundnir.

Konan var að skemmta sér á 800 Bar á Selfossi þegar lögreglan kom á vettvang til þess að fjarlægja æstan mann ótengdum konunni. Lögreglukonan ætlaði að fara inn á skemmtistaðinn til að ræða við dyraverðina.

Hin dæmda stóð þá fyrir dyrunum en lögreglukonan vísaði henni frá með því að taka í hana og færa hana frá. Konan brást illa við tilmælum lögreglunnar og kastað glasi, sem hún hafi haldið á, af afli í átt að lögreglukonunni. Í þann mund snéri lögreglukonan sér við og lenti glasið þá í enni hennar.

Glasið brotnaði þegar það skall í jörðina. Konan fékk stóra bólgukúlu á ennið eins og það er orðað í dómnum.

Í niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands segir að konan hafi neitað sök. Hún hafi hinsvegar verið verulega ölvuð og því ekki munað eftir atburðinum. Hún var hinsvegar sakfelld á framburði lögreglunnar.

Konan hefur ekki áður gerst sek um refsiverðan verknað.

Í dómnum segir um sérstaklega hættulega líkamsárás sé að ræða. Árásin hafi verið með öllu tilefnislaus og segir í niðurstöðu dómsins að hún lýsi skeytingarleysi og virðingarleysi gagnvart lögreglu sem hafði lögmæt og eðlileg afskipti af konunni umrætt sinn.

Því þyki hæfilegt að dæma hana í átta mánaða fangelsi. Sex mánuðir refsingarinnar eru skilorðsbundnir og falla niður að þremur árum liðnum. Konan þarf því að afplána tvo mánuði í fangelsi þrátt fyrir að vera með hreina sakaskrá hingað til.

Fyrri greinVel heppnuð klappstýrusýning
Næsta greinLofa áframhaldandi þjónustu