Dæling hafin í Landeyjahöfn

Dæluskipið Skandia hóf að dýpka Landeyjahöfn á ný síðdegis í dag.

Rétt um mánuði eftir komu skipsins til landsins er sjólag og veður loks hentugt til að dæla úr höfninni í nokkra daga samfellt. Áhöfnin hefur þurft að bíða lengi eftir norðanáttinni sem er heppilegasta vindáttin til verksins.

Á vef RÚV er haft eftir stýrimanni Skandia að Siglingastofnun hafi gefið grænt ljós á að dýpkun hafnarinnar hæfist eftir að dýpi hennar var kannað fyrr í dag. Jarðefni í innsiglingunni hafa aukist lítillega í sunnanlægðunum undanfarið.

Sem fyrr er mikið af fíngerðri gosösku á hafnarbotninum og hafa skipverjar brugðið á það ráð að dæla sjó gegnum rist til að flýta fyrir lestun skipsins.

Vonast er til þess að hægt verði að dýpka fram á sunnudag. Í dag eru átta vikur liðnar frá því að Landeyjahöfn var lokað.

Fyrri greinSlökkvistöðin seld
Næsta greinÖruggt hjá Hamri í Keflavík