Dægurlagafélagið syngur fyrir Tönju Kolbrúnu

Af mjög sérstöku tilefni hefur Dægurlagafélagið ákveðið að koma saman aftur og halda tónleika/uppistand í Tryggvaskála næsta sunnudagskvöld 3. maí kl. 20:00.

Dægurlagafélagið saman stendur af Heimi Eyvindarsyni, Ingólfi Þórarinssyni, Hreimi Erni Heimissyni og Einari Bárðarsyni en sérstakir gestir þetta kvöld verða þeir Einar Ágúst Viðisson og Herbert Viðarsson úr Skítamóral.

Tónleikarnir þeirra eru blanda af uppistandi og tónlistarflutningi þar sem þeir segja sögurnar á bak við smellina og flytja þá í órafmögnuðum útgáfum.

Dægurlagafélagið kom saman fyrir tæplega tveimur árum og hélt nokkra vel valda tónleika um landið og má með sanni segja að viðburðurinn hafi slegið rækilega í gegn þar sem þeir félagarnir fóru gjörsamlega á kostum. Gestir voru í hláturskasti yfir sögunum og sungu með í lögunum.

Allur aðgangseyrir þetta kvöld rennur til fjölskyldu Tönju Kolbrúnar Fannarsdóttur, þriggja ára stúlku á Selfossi sem berst við hvítblæði. Einnig mun öll innkoma af drykkjarsölu renna óskert til styrktar krabbameinsveikum börnum. Hægt er tryggja sér miða í Tryggvaskála í vikunni í síma 482-1390.

Fyrir þá sem ekki eiga heimangengt en vilja leggja málefninu lið þá er hægt að leggja inn á söfnunarreikning Tönju Kolbrúnar. Reikningur: 0325-13–110106. Kennitala: 210911-2190.

Fyrri greinFlugeldafikt olli sinubruna
Næsta greinEyvindur Hrannar leikmaður ársins