Dæmdur í meðferð eftir fjölda brota

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í gær karlmann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að sækja áfengismeðferð á meðferðarstofnun í allt að eitt ár fyrir ítrekuð áfengislagabrot.

Ákæruliðirnir á hendur manninum voru ellefu talsins. Hann var meðal annars kærður fyrir að hafa dvalist ölvaður í heimildarleysi í fjölbýlishúsum á Selfossi, m.a. í sorpgeymslum, hitakompum og stigagöngum og valdið íbúum ónæði og raskað næturró þeirra.

Hann var einnig kærður fyrir mótþróa við lögreglu og fyrir að hafa tvívegis sparkað í lögregluþjón við handtöku. Þá hefur maðurinn ítrekað gerst sekur um hneykslan á almannafæri undir áhrifum áfengis, m.a. í verslun Krónunnar þar sem hann grýtti vörum í viðskiptavini. Þá var hann einnig kærður fyrir að taka þrettán flöskur af matarlit ófrjálsri hendi úr verslun Samkaupa á Selfossi.

Maðurinn játaði brot sín fyrir dómi í gær.

Fyrri greinMenningarkvöld til heiðurs Páli Lýðssyni
Næsta greinInnbrot í Hveragerði