Dæmd fyrir veiði í eigin landi

Hjón í Mosfellsbæ fengu 20 þúsund króna sekt hvort um sig fyrir að hafa á sunnudags­eftirmiðdegi í fyrrasumar, stundað stang­veiði í Tungufljóti án þess að hafa tilsett leyfi.

Veiðina stunduðu þau á eigin landi og töldu sig hafa heimild til þess. Málið er til marks um deilur sem staðið hafa meðal landeigenda við Tungufljót um stofnun veiðideildar og leigu árinnar til Árna Baldurssonar í Lax-á, en Árni samdi við nýja deild innan Veiðifélags Árnesinga um leigu á Tungufljóti til tíu ára.

Hjónin, sem dæmd voru, hafa alla tíð verið andvíg leigu­samningnum og stofnun veiðideildarinnar og töldu sig hafa rétt til veiða á landinu og báru fyrir sig samþykkt Veiðifélags Árnesinga.

Í málflutningi kom fram að dæmi væri um að veiðimenn sem höfðu keypt stangir í ánni hafi orðið varir við aðra að veiðum í landi umræddra hjóna og kvartanir borist leiguhafanum. Málinu hafði áður verið vísað frá í héraði en hæstiréttur ógilti frávísunina og því var það tekið upp aftur.

Dómarinn taldi að Tungufljótsdeild væri í fullum rétti til að ráðstafa ánni til leigutaka, þrátt fyrir andstöðu nokkurra landeigenda og vísaði hann í úrskurð Fiskistofu þess efnis.

Kom fram í dómnum að landeigendur sem voru andvígir samningi deildarinnar við leigutaka hafi ekki reynt að fá þeirri niðurstöðu hnekkt. Því sé óumdeilt að Tungufljót ehf, félagið í eigu Árna Baldurssonar, sé veiðiréttarhafi í Tungufljóti og landeigendum því óheimilt að veiða í ánni án hans samþykkis. Auk 20 þúsund króna sektar þurfa þau dæmdu að greiða skipuðum verjanda sínum alls 600 þúsund krónur í málskostnað.