Dæmd fyrir að slá lögreglukonu

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í morgun konu á fertugsaldri í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni en hún sló lögreglukonu í andlitið.

Atvikið átti sér stað á lögreglustöðinni á Selfossi í október 2008. Verið var að færa konuna í fangaklefa þegar hún sló lögreglukonuna “milliföstu” höggi með þeim afleiðingum að lögreglukonan hlaut bólgukúlu, mar og eymsli hægra megin í andliti við hægri augabrún.

Konan neitaði sök en bar fyrir dómi að hún myndi ekkert eftir atburðum næturinnar vegna áfengisneyslu.

Konan var dæmd í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, auk þess sem henni er gert að greiða allan sakarkostnað, rúmar 213 þúsund krónur.