Colas leggur malbik á nýju Ölfusárbrúna

Óskar Ólafsson, framkvæmdastjóri Óskataks og Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Colas Ísland, undirrituðu samninginn. Ljósmynd/Aðsend

Óskatak og Colas Ísland hafa undirritað verksamning um að Colas Ísland sjái um malbikun við nýju Ölfusárbrúna. Óskatak er undirverktaki ÞG-verk og sem slíkt sér félagið um jarðvegsframkvæmdir verkefnisins, þar með talið gatnagerð.

„Við hjá Colas fögnum því mjög að halda áfram góðu samstarfi við Óskatak sem byggst hefur upp undanfarin ár. Enn fremur að fá að taka þátt í einu mest spennandi verkefni undanfarinna ára á þjóðvegakerfi okkar undir styrkri stjórn ÞG sem er aðalverktaki verksins,“ segir Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Colas.

Áætlað er að leggja út 200.000 fermetra af malbiki í tengslum við verkefnið eða um 30.500 tonn og fer stór hluti þess á hringveginn um Suðurlandsveg. Verður sá kafli, sem er um 60.000 fermetrar, byggður upp í þremur malbikslögum og er gert ráð fyrir að nota um 27.000 tonn af malbiki á þann kafla. Þá eru um 20.000 fermetrar hliðarvegir, göngustígar og annað sem tengist framkvæmdinni og fara um það bil 4.000 tonn af malbiki í þá gatnagerð.

Vegagerð og undirbúningur fyrir brúarsmíðina er hafinn en aðkoma Colas að verkefninu hefst að fullu árið 2026. Gert er ráð fyrir að því ljúki með borðaklippingu þegar brúin verður opnuð fyrir umferð almennings.

Fyrri greinHjálmar keppir á NM í fjölþrautum
Næsta greinDæluhús við árbakkann