Circula/Recoma valið á fjárfestahátíð Norðanáttar

Ljósmynd/Recoma

Átta fyrirtæki hafa verið valin til þátttöku á fjárfestahátíð Norðanáttar sem fer fram á Siglufirði þann 20. mars næstkomandi. Eitt þeirra verkefna sem valin voru að þessu sinni er sunnlenska nýsköpunarverkefnið Circula/Recoma, rekið af Circula ehf.

Circula ehf. er á lokastigum undirbúnings fyrir stofnun RECOMA Ísland ehf. Markmiðið er að reisa verksmiðju sem sérhæfir sig í framleiðslu á PackWall byggingaplötum. Þessar nýjungarplötur eru búnar til úr endurunnum Tetra Pak umbúðum. Með þessu frumkvæði mun Circula gefa umbúðunum nýjan tilgang og breyta í hágæða, umhverfisvænar byggingaplötur.

Hráefnið fyrir framleiðsluna verður fengið frá helstu söfnunaraðilum landsins. Plöturnar munu bera 80-90% lægra kolefnisspor en sambærilegar byggingarplötur auk þess að stuðla að öðrum jákvæðum umhverfisáhrifum í samræmi við grunnstoðir hringrásarhagkerfisins.

Verkefnið hefur á fyrri stigum hlotið stuðning frá SASS í gegnum atvinnurþróunar og nýsköpunarflokk Uppbyggingarsjóðs Suðurlands.

Að fjárfestahátíðinni Norðanátt standa EIMUR og landshlutasamtökin á Norðurlandi SSNE og SSNV með stuðningi frá Umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytinu. Bakhjarlar Fjárfestahátíðarinnar 2024 eru Tækniþróunarsjóður, KPMG, Nýsköpunarsjóður og KEA.

Fyrri greinHamarsmenn fallnir – Öruggt hjá Þór
Næsta greinDavíð krýndur Suðurlandsmeistari