Cecilie ráðin mannauðsstjóri

Cecilie B. H. Björgvinsdóttir hefur verið ráðin í stöðu mannauðsstjóra við Heilbrigðisstofnun Suðurlands frá 1. mars næstkomandi, til 5 ára. Hún var valin úr hópi 27 umsækjenda.

Cecilie er fædd árið 1964. Hún lauk námi í hjúkrunarfræði frá HÍ árið 1995 og MBA námi í viðskiptafræði með áherslu á mannauðsstjórnun frá HR árið 2005. Að auki hefur hún sótt námskeið á sviði verkefnastjórnunar, stjórnsýslu og mannauðsmála.

Cecilie hefur víðtæka og farsæla reynslu á sviði stjórnunar í heilbrigðisþjónustu, mannauðsmála og kjara- og réttindamála í opinberri þjónustu. Hún starfaði sem hjúkrunarfræðingur á Landspítala og á árunum 1999-2007 sem hjúkrunardeildarstjóri á skurðlækningadeild bæði á Borgarspítala, fyrir sameiningu, og eins eftir flutning deildar yfir á Landspítala við Hringbraut. Frá þeim tíma hefur hún mikla reynslu af mönnun og samþættingu starfa starfsmanna í heilbrigðisþjónustu, móttöku og þjálfun nema og nýliða í starfi, starfsmannasamtölum og þróun frammistöðumatskerfis fyrir fagfólk í heilbrigðisþjónustu.

Um tíma starfaði hún einnig sem verkefnastjóri á Landspítala. Frá árinu 2007 til dagsins í dag hefur Cecilie starfað sem sviðsstjóri kjarasviðs hjá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Á þeim tíma hefur hún öðlast yfirgripsmikla reynslu og þekkingu á sviði kjaramála og gengt fjölmörgum trúnaðarstörfum í samstarfsnefndum, stjórn lífeyrissjóðs og samninganefndum.

Hún hefur einnig framúrskarandi þekkingu á réttindum og skyldum opinberra starfsmanna, útfærslu kjarasamninga og gerð kannanna á sviði mannauðsmála.

Fyrri greinHvolsskóli vann þrjá bikara af fjórum
Næsta greinSlæmar veðurhorfur við suðausturströndina