Café Hekla á tindi Heklu

Gasmælingaverkefni hófst á Heklu snemma árs 2012 í samstarfi Veðurstofu Íslands, ÍSOR og ítölsku jarðváreftirlitsstofnunarinnar INGV í Palermo.

Mælibúnaður og tæknileg aðstoð fengust frá INGV en þar er mikil reynsla fyrir hendi í notkun gasmælinga til rauntímavöktunar eldstöðva.

Aðferðafræðin var prófuð sumarið 2012 og athugað hvort hún hentaði á Heklu. Mælingar gengu mjög vel frá því stöðin var sett upp í júlí og fram í september en þá kom upp vandamál með þráláta ísingu á vindmyllu sem sá mælinum fyrir rafmagni.

Stöðin hefur nú verið endurhönnuð af tæknimönnum Veðurstofunnar og INGV svo að hægt sé að mæla allan ársins hring á toppi Heklu. Búnaðurinn og rafgeymar eru nú í sérsmíðuðum kofa og sólarljós og hiti úr eldfjallinu nýtt til að halda stöðinni gangandi.

Niðurstöður úr mælingum 2012 sýndu merki um kvikuhólf á dýpi yfir 10 km. Talið er að efnabreytingar í gasútstreyminu geti gefið vísbendingu um það þegar kvika fer að færast nær yfirborði.

Landhelgisgæsla Íslands og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra komu til aðstoðar og fluttu stöðina á tind Heklu með TF-LÍF í síðustu viku. Mælingar munu hefjast í byrjun apríl og gögnin streyma á Veðurstofuna þar sem þau tengjast annarskonar vöktun (skjálftavirkni, skorpuþenslu). Lögð er áhersla á að hefja sem fyrst samfellda söfnum gagna til að fá upplýsingar um hegðun gasútstreymis frá eldstöðinni og finna þröskuldsgildi sem nýst geta sem fyrirboðar eldgoss.

Gasmælingastöðin hefur fengið gælunafnið Café Hekla. Hún er staðsett á tindi Heklu til frambúðar, með leyfi frá Rangárþingi ytra. Hún veldur engri hljóð- eða loftmengun en varað er við því að reynt sé að opna kofann því gasstyrkur þar inni getur verið hættulegur.

Verkefnið var upprunalega styrkt af Alþjóðaflugmálastofnuninni ICAO og Rannís 2012-2013 en hefur nú verið fjármagnað til a.m.k. 2016 í gegnum öndvegisverkefni Evrópusambandsins, FP7 FUTUREVOLC, Ofurstöð í eldfjallafræðum á Íslandi.

Heimasíða Veðurstofunnar

Fyrri greinÓvissustig vegna Heklu
Næsta greinEkið utan í bíl við Þingborg