Býst við fleiri smitum næstu vikurnar

Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. sunnlenska.is/Helga R. Einarsdóttir

Annað kíghóstasmit greindist á Suðurland í dag en eins og sunnlenska.is sagði frá síðdegis hafði smit áður verið staðfest í grunnskólanema á Selfossi.

„Það má búast við að smitin verði eitthvað fleiri á næstu dögum og vikum, bæði hér á Suðurlandi sem annars staðar,“ segir Elín Freyja Hauksdóttir, umdæmislæknir sóttvarna á Suðurlandi, í samtali við sunnlenska.is.

„Þegar smit koma upp hjá grunnskólanemum eru foreldrar bekkjafélaganna látnir vita, en í öðrum tilvikum er bara einstaklingurinn sjálfur upplýstur,“ segir Elín en á þriðja tug smita hafa greinst á landinu síðan í apríl.

„Læknar eru að skima fyrir þessu hjá fólki með einkenni sem gætu passað við kíghósta, en nær öll sýnin eru neikvæð,“ bætir Elín við að lokum.

Á síðu sóttvarnalæknis og Heilsuveru eru mjög góðar upplýsingar um kíghósta. Einnig er hægt að hringja í 1700 ef fólk er í vafa.

Fyrri greinHalldór áfram með Hamarsliðið
Næsta greinCornelia framlengir